Skilmálar
Sölu- og ábyrgðarskilmálar / Megin upplýsingar
Skilmálar þessir gilda um sölu á vörum og þjónustu Aflvéla ehf. til
- annars vegar neytenda (einstaklinga) og
- hins vegar fyrirtækja/lögaðila/rekstraraðila
Meginefni skilmálanna gildir um hvoru tveggja i og ii, en sérákvæði sem gilda um hvorn aðila eru hér sérstaklega skilgreindir að neðan eftir því sem við á. Skilmálar eru staðfestir og samþykktir af kaupanda með staðfestingu á kaupum á vörum eða þjónustu, með greiðslu eða með sérstakri undirritun hans, á pappír eða rafrænt og er grunnurinn að viðskiptunum. Skilmálar eru einnig vistaðir og sjáanlegir á heimasíðu seljanda, www.aflvelar.is. Skilmálar eru einungis á íslensku og á ábyrgð kaupanda að afla sér þýðinga, telji hann þörf á slíku. Um neytendakaup (einstaklingar) er fjallað um í lögum 48/2003 um neytendakaup. Um kaup lögaðila/fyrirtækja/rekstraraðila gilda m.a. lög 50/2000 um lausafjárkaup. Einnig gilda hér lög um samningsgerð, lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, lögræðislög og lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Kaupandi ber ábyrgð á að kynna sér ítarlega ábyrgðarskilmála þessa.
- Umboðssala
Vörur sem seldar eru í umboðssölu eru seldar án ábyrgðar Aflvéla ehf. Reynist galli á hinu selda á kaupandi eingöngu hugsanlega kröfu á eiganda / seljanda vörunnar, en ekki Aflvélar ehf. sem miðlara milli seljanda og kaupanda. Í slíkum tilfellum hefir miðlari ekki kannað sérstaklega ástand eða eiginleika hins selda Í öllum tilvikum er kaupandi hvattur til þess að láta óháðan aðila skoða og meta ástand og eiginleika söluhlutar, sérstaklega ef um skráningarskyldar vélar og tæki er að ræða. Láti kaupandi undir höfuð leggjast að láta framkvæma slíka skoðun og úttekt á söluhlut, á hann engar kröfur á hendur seljanda vegna atriða sem hefðu getað upplýsts við slíka skoðun.
- Notuð tæki og búnaður
Notuð tæki og búnaður er selt án ábyrgðar, enda í flestum tilfellum verið í eigu og notkun þriðja aðila. Kaupendur skulu kynna sér vel ástand og eiginleika söluhluta og eftir atvikum fá óháða kunnáttumenn til þess að skoða og meta ástand slíkra notaðra tækja eða búnaðar.
- Skilafrestur
Skilafrestur rekstrarvara og varahluta er 30 dagar frá afhendingu gegn framvísun reiknings. Ef skilað er innan 10 daga í upprunalegum óskemmdum umbúðum er endurgreitt í samræmi við upphaflegt greiðsluform, annars inneignarnóta. Afföll af skilavöru nemur 15% kaupverðs, sem dregst frá endurgreiðslu. Almennt er ekki tekið við skilum á sérpantaðri vöru. Seljandi kann þó að taka slíka vöru til baka með afföllum í undantekningartilfellum, eftir mati hans hverju sinni. Rafmagns- og efnavörur eru ekki teknar til baka.
Fyrir vöru sem er pöntuð en ekki sótt, verður gefinn út reikningur og innheimt á hendur þeim sem pantað hefur og/eða pantað er fyrir.
- Ábyrgð á viðgerðarþjónustu
Athugasemdir við viðgerðarþjónustu ber að gera innan 30 daga frá því að þjónustan var veitt. Að öðrum kosti fellur hugsanleg ábyrgð vegna viðgerðar niður.
- Réttur við galla eða vöntun
Ef að varan er gölluð eða það vantar eitthvað í vöruna er seljanda skylt að bjóða kaupanda viðgerð, nýja vöru, afslátt eða afturköllun kaupa. Það fer eftir atvikum hvaða leið seljandi velur hverju sinni. Tilkynning um hugsanlegan galla verður að berast skriflega. Tilkynningin berist innan 7 daga frá því galli uppgötvast. Vegna skráningargildis og staðfestingar á tilkynningu er mælt með að kaupandi sendi tölvupóst um gallann og geymi afrit. Seljandi sendir staðfestingu til baka um móttöku tölvupóstsins. Réttur neytenda (með neytanda er átt við einstakling utan atvinnustarfsemi) til að fá galla bættan er í samræmi við neytendakaupalög nr. 48/2003.
Seljandi áskilur sér rétt til að sannreyna að varan sé gölluð, eins fljótt og auðið er. Eðlileg tímamörk vegna þessa teljast oftast 5-10 vikna bið eftir tíma, allt eftir bókunarstöðu hverju sinni á verkstæði. Viðgerð getur síðan tekið alla jafna allt að 4-10 vikur, sem veltur meðal annars á afgreiðsluhraða varahluta frá birgja. Viðgerðartími lengist ef varahluta afgreiðsla birgja tekur lengri tíma.
Kaupandi skal ávallt koma vöru til seljanda á eigin kostnað á starfsstöð hans að Vesturhrauni 3, 210 Garðabæ, til skoðunar og mats á verkstæði, hvort um galla sé að ræða. Álitamál þar að lútandi eru ávallt send til framleiðanda viðkomandi vöru sem tekur endanlega ákvörðun um hvort um sé að ræða galla eða ekki. Sé það niðurstaða framleiðanda að um galla sé að ræða, skal gallinn bættur samkvæmt framangreindu.
Ábyrgðarviðgerðir miðast við að þær séu unnar á verkstæði seljanda eða á viðurkenndu þjónustuverkstæði, sem seljandi bendir á hverju sinni.
Ábyrgð fellur úr gildi hafi kaupandi breytt, lagfært sjálfur eða átt við söluhlut, eða verkstæði sem ekki er viðurkennt þjónustuverkstæði seljanda. Einnig ef notaðir hafa verið varahlutir, eldsneyti, olíur og annað slíkt sem ekki er viðurkennt af söluaðila. Þá fellur ábyrgð úr gildi hafi kaupandi ekki fært tæki til reglulegrar þjónustuskoðunar eða olíuskipta hjá seljanda, sem áskilnaður hvers tækis segir til um.
Ábyrgðarviðgerðir skulu framkvæmdar innan uppgefinna tímamarka framleiðenda og á því gjaldi sem framleiðandinn samþykkir.
Kostnaður og tímagjald vegna ferða á verkstað og / eða flutnings tækis til og frá verkstæði er ekki innifalið í endurgreiðslu ábyrgðar. Eins er um flutningskostnað á varahlutum.
Kostnaður við eðlilega slithluti s.s. reimar, síur, olíur og rekstravörur s.s. tvistur, tuskur, hreinsiefni, mæla- og verkfæragjald er ekki innifalið í endurgreiðslu ábyrgðar. Þannig tekur ábyrgð t.d. ekki til endurnýjunar á vökvum fyrir viðgerðir á gírkössum, aflvélum og vökvakerfum og greiðir kaupandi ávallt fyrir það sjálfur.
Það er á ábyrgð þjónustuverkstæðis að einungis séu notaðir varahlutir keyptir af söluaðila til að ábyrgð tækisins falli ekki úr gildi.
Skemmdir vegna misbeitingar eða notkunar í öðrum verkefnum en búnaðurinn er hannaður fyrir, skorti á viðhaldsþjónustu eða breytinga sem hafa verið framkvæmdar án samþykkis framleiðanda fást ekki bættar í ábyrgð.
Skilavara, sýningareintök og útlitsgallaðar vörur eru seldar sem einstök vara og við úrlausn ábyrgðar er henni ekki skipt út fyrir sambærilega vöru, heldur er eftir atvikum gefin inneignarnóta eða veitt endurgreiðsla með afföllum.
- Tímalengd ábyrgðar
Ábyrgðir seljanda hafa ekki í för með sér takmarkanir á rétti sem kveðið er á um í lögum um neytendakaup. Ábyrgð vegna galla á vöru er í samræmi við neytendakaupalög 48/2003 og er 2 ár og miðast við kaupdagsetningu til einstaklinga utan atvinnustarfsemi. Ef um ræðir sölu á vöru til fyrirtækis (atvinnustarfsemi), þar með talið atvinnustarfsemi á eigin kennitölu rekstraraðila, er ábyrgð á galla 1 ár frá kaupdagsetningu samkvæmt lögum um lausafjárkaup lög nr 50/2000.
Ábyrgð er ekki staðfest nema að kaupnótu sé framvísað.
- Takmörkun ábyrgðar.
Ábyrgðin nær ekki til eðlilegs slits tækis eða notkunar á rekstrarvörum þ.e.a.s. hún nær ekki til tækja sem eðlilegt þykir að endist skemur en 2 ár, ef almennur kvörtunarfrestur er 2 ár.
Ábyrgð fellur úr gildi ef tækið hefur verið opnað eða átt hefur verið við það án yfirumsjónar/samþykkis seljanda þrátt fyrir að þar hafi verið að verki verkstæði og/eða viðurkenndur aðili annar en seljandi. Sama á við hafi verið notaðar olíur, síur eða varahlutir sem ekki eru samþykktir sérstaklega af framleiðanda, sbr. ábyrgðarskilmála þeirra.
Ábyrgðin fellur einnig niður ef rekja má bilun til illrar eða rangrar meðferðar og er kaupanda bent á að lesa gaumgæfilega leiðbeiningar eða handbók sem fylgja hinu selda, varðandi meðferð og viðhald.
Kostnaður og tímagjald vegna ferða á verkstað og / eða flutnings tækis til og frá verkstæði er ekki innifalið í endurgreiðslu ábyrgðar. Sama gildir um flutningskostnað á varahlutum.
Tekjutap, hugsanlegur kostnaður og tapaðir verktímar vegna bilaðs hlutar eru ekki bættir og falla ekki undir ábyrgð.
Ekki er ábyrgð á hugbúnaði eða öðrum óáþreifanlegum hlutum (hlutum sem hafa áhrif á eiginleika tækisins eins og vírusar og annað sem ekki er hægt að rekja til framleiðanda).
Í sumum tilfellum kann að vera að einstakar vörur eða vörumerki séu með lengri ábyrgðartíma. Í þeim tilfellum sem það á við er slíkt tekið fram.
Aldrei er tekin ábyrgð á sölu notaðra vara og tækja eða vara og tækja sem kunna að vera í endursölu hjá seljanda, sbr. liði 1 og 2 hér að framan.
Hvers konar ábyrgð fellur niður verði tjón eða ágalli vegna óvæntra utanaðkomandi atburða (Force Majeure), svo sem vegna stríðsástands, verkfalla, flutningstjóns, seinkunar flutningsaðila, náttúruhamfara, o.fl.
- Aukin ábyrgð
Í undantekningartilfellum kann að vera að framleiðandi véla og tækja fallist á aukna ábyrgð (Goodwill Claim) þó söluvara sé fallin úr almennri ábyrgð. Slíkar ábyrgðir umfram skyldu eru ávallt metnar og ákvarðaðar af framleiðanda, það er hvort fallist sé á ábyrgð, að hve miklu leyti, hámark bótafjárhæðar o.s.frv. Ófrávíkjanlegt skilyrði þess að og áður en sótt sé um aukna ábyrgð hjá framleiðanda, er að galli eða tjón sé sannreynt af söluaðila og að fullnægjandi viðgerð hafi þegar verið framkvæmd áður en óskað er eftir afstöðu framleiðanda til beiðni um aukna ábyrgð.
- Vanskil, dráttarvextir
Við vanskil að hluta eða í heild reiknast dráttarvextir sem nema 0,05% fyrir hvern dag sem vanskil standa. Dráttarvextir reiknast frá útgáfudegi reiknings, ekki gjald- eða eindaga.
Greiðslum vegna vanskila er fyrst ráðstafað til greiðslu áfallins- og útlagðs kostnaðar, síðan áfallinna dráttarvaxta og að lokum upp í höfuðstól.
- Viðtökudráttur
Ef sölu- eða viðgerðarvörur eru ekki sóttar á umsömdum eða tilkynntum afhendingardegi, reiknast geymslugjald að þremur dögum liðnum frá því vara var tilbúin til afhendingar. Gjald vegna þessa nemur kr. 2.500 – 25.000 fyrir hvern dag eftir eðli og umfangi viðkomandi vara hverju sinni.
- Önnur ákvæði
Aldrei er tekin ábyrgð á vörum eða þjónustu sem ekki hefur verið greidd til seljanda. Varan sem tilgreind er í reikningi er eign seljanda þar til hún hefur verið að fullu greidd.
Vörur eru á ábyrgð kaupanda frá afhendingu úr vörugeymslu seljanda, hvort sem er til kaupanda eða flutningsaðila. Kaupanda er skylt að vátryggja vörur í flutningi og renna hugsanlegar vátryggingarbætur til seljanda sé vara ógreidd.
Reikningar seljanda eiga uppruna sinn í rafrænu bókhaldskerfi skv. reglugerð nr. 505/2013