Áramótahugleiðing – Dögun nýrrar kornræktarbylgju.
Á undanförnum árum hefur áhugi fyrir kornrækt á meðal bænda farið dvínandi og ræktun dregist saman á mörgum svæðum. Þessi þróun á sér eflaust margar skýringar en meðal þeirra algengustu má nefna tjón vegna fugla og erfiðs tíðarfars á haustin að ógleymdu lágu heimsmarkaðsverði á korni.
Nú er ýmislegt sem bendir til að breyting sé að verða á og kornrækt muni fara vaxandi en helstu rökin fyrir því eru eftirfarandi:
- Í fyrsta lagi vakning á meðal bænda um mikilvægi þess að fóður sem menn nota sé íslenskt og þannig séu gæði og hreinleiki fóðursins þekkt.
- Í öðru lagi til að minnka kolefnisspor Íslands en íslensk kornrækt stuðlar að aukinni kolefnisbindingu, því kolefni sem er bundið í hálmi er oftast varanlega bundið þar sem hálmurinn er yfirleitt notaður sem undirburður og verður í framhaldinu jarðvegsbætir.
- Í þriðja lagi til að tryggja fæðuöryggi landsins og draga þannig úr áhættu sem annars gæti hlotist ef breytingar yrðu í hinu alþjóðlega landslagi.
Með stóraukinni áherslu á aukna kolefnisbindingu landsins á næstu áratugum og aukinni áherslu á uppgræðslu lands er ljóst að tugir þúsunda hektara lands munu breytast í nytjaland sem mun geta hentað vel til kornræktar og annarrar jarðræktar. Þetta nýja nytjaland mun styðja við áframhaldandi uppbyggingu og bætta samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar þar sem oft er um að ræða stór svæði sem geta orðið mjög hagkvæm í ræktun. Má í þessu sambandi nefna að t.d. í Bandaríkjunum eru ræktaðir hundruðir þúsunda hektara lands sem er það rýrt að það skilar oft einungis 1-2 tonnum af korni á hektarann en er samt arðbært í ræktun þar sem öllum tilkostnaði er haldið í algeru lágmarki.
Við höfum séð á undanförnum árum að hér á landi eru öflugir kornbændur sem hafa náð frábærum árangri í sinni kornrækt með sífelldri þekkingarleit og skýrum markmiðum. Með því að leita í smiðju þessara bænda og á sama tíma efla verulega almenna þekkingaröflun fyrir jarðrækt hérlendis er engin vafi á að kornrækt á Íslandi getur vaxið mikið á næstu árum og arðsemi aukist. Aukin kornrækt og almenn vakning á þeim ávinningi sem felst fyrir rekstur landbúnaðar almennt í meiri áherslu á jarðrækt og uppskeru lands mun í kjölfarið styrkja íslenskan landbúnað og auka sjálfbærni hans.
Með bestu óskum um Gleðilegt og gjöfult ár ásamt kærum þökkum fyrir það liðna.
Finnbogi Magnússon